Aukin verðmætasköpun íslensks útflutnings er verðugt verkefni sem atvinnulíf og stjórnvöld hafa bundist höndum um að sinna í hart nær hálfa öld. Slík starfsemi þarf að vera í sífelldri þróun sem tekur mið af breyttum aðstæðum, bæði heimafyrir og á erlendum vettvangi. Í ljósi þess mælti utanríkisráðherra fyrir breytingum á lögum um Íslandsstofu sem samþykktar voru af Alþingi á seinasta ári. Breytingunum er ætlað að skerpa á stöðu Íslandsstofu og markmiðum og styrkja hana til að sinna hlutverki sínu sem samstarfsvettvangur atvinnulífs og stjórnvalda um stefnu og aðgerðir til þess að auka útflutningstekjur og hagvöxt.
Í kjölfar lagasetningarinnar var skipuð ný stjórn, nýr framkvæmdastjóri var ráðinn og breytingar voru gerðar á skipulagi Íslandsstofu. Markmiðið með skipulagsbreytingunni var að stytta boðleiðir og efla þjónustu Íslandsstofu við íslenskt atvinnulíf, erlenda fjárfesta og menningarstarfsemi. Í nýjum lögum er Íslandsstofu ætlað að móta langtímastefnu um aukningu útflutningstekna. Stefnumótuninni er ætlað að velja áherslur í markaðsstarfi Íslands á erlendum mörkuðum og skilgreina mælanleg markmið til að hægt sé að meta árangur. Stefnan skal endurspegla hagsmuni, sjónarmið og stefnumið útflutningsgreina til markaðsstarfs á erlendri grundu og stuðning við fyrirtæki sem hyggja á útflutning. Íslandsstofa hefur á undanförnum mánuðum unnið að þessari stefnumótun og gerum við ráð fyrir að kynna afraksturinn í lok sumars. Það er ljóst að tækifærin eru víða, bæði í okkar hefðbundnu útflutningsgreinum, sjávarútvegi, ferðaþjónustu, orkuháðum iðnaði og alþjóðageiranum, þar sem mikil gróska er í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi. Þá eru menningarstarfsemi og skapandi greinar í mikilli sókn.
Rannsóknir sýna að á erlendum mörkuðum er ímynd Íslands mjög góð þegar kemur að sjálfbærni og ósnortinni náttúru
Fyrirtæki um allan heim standa frammi fyrir nýjum og spennandi áskorunum um þessar mundir. Breytt gildismat, þar sem aukin áhersla er á sjálfbærni, ábyrga kauphegðun og verndun náttúru í víðum skilningi, hefur í för með sér nýjar áskoranir. Þessar breytingar skapa einnig fjölmörg tækifæri fyrir fyrirtæki og þær þjóðir sem láta sig þessi málefni varða. Við Íslendingar erum í góðri stöðu til ná árangri í breyttum heimi. Umgengni okkar við auðlindir lands og sjávar leikur hér lykilhlutverk. Og þar höfum við góða sögu að segja. Rannsóknir sýna að á erlendum mörkuðum er ímynd Íslands mjög góð þegar kemur að sjálfbærni og ósnortinni náttúru. Í heildina er staða Íslands sterk, þó auðvitað megi alltaf gera betur á einstökum sviðum. Þessi staða getur skapað mikil tækifæri fyrir Ísland til framtíðar sé rétt á málum haldið.